Nýjung hjá bilprof.is

Oct. 4, 2018

Kvíðir þú skriflega prófinu?

Nú býður Ökuskólinn í Mjódd upp á sérstakan undirbúning fyrir skriflega prófið. Þarna eru nemendur undirbúnir fyrir prófið en margir kvíða þessu prófi og ekki verra að koma vel undirbúin.
Þessi stuttu námskeið eru alla þriðjudaga kl. 17:00 - 18:30 og kosta 3.600,-.

Skráning í síma 567-0300 eða með tölvupósti á mjodd@bilprof.is

Ökukennarar í Tékklandi

Fór með hópi ökukennara í náms- og kynnisferð til Tékklands.  Þar heimsóttum við ökuskóla og kynntum okkur starfið þar, fórum í Skodaverksmiðjurnar í Mladá Boeslav og sáum hvernig bíll verður til á færibandi.

Þessi ferð var afskaplega vel heppnuðu og fróðleg.  Alltaf gott og gagnlegt að kynna sér nýjungar og hvað kollegarnir eru að gera, í þetta sinni í Tékklandi.

Nýtt Logo

Tók í dag í notkun nýtt "Logo" fyrir hliðarsjálfið mitt, ökukennsluna.  Vegurinn framundan og út við sjónarrönd lýsir sólin.  Tákn gæfuríkrar vegferðar.

Skutlan á siðasta vetrardag

Bíllinn minn þurfti smá aðhlynningu á verkstæði í dag.  Ég mætti með hann tímanlega og var boðið far með "skutlunni" heim sem og ég þáði.

Við vorum tveir í skutlunni auk ökumannsins.  Hann byrjaði á að aka af stað, spurði hvert ferð okkar væri heitið.  Báðir ætluðum út á Álftanes og þá dró hann símann upp, lagði hann á lærið á meðan hann glímdi við Google Maps.

Fljótlega kom að gatnamótum þar sem umferðinni var stýrt með ljósum.  Þar sem okkar maður var mjög upptekinn við glímuna við Google tók hann ekkert eftir því að hann fór yfir gatnamótin á rauðu ljósi.  Heppilegt að við voru eini bíllinn á gatnamótunum.  Svo lauk glímunni við Google og þá var hægt að slá undir kvið.  

Okkar maður hafði greinilega ekki fengið í sínu ökunámi neina leiðsögn hvernig best væri að halda um stýri og notaði því bara þá vinstri sem hann lagði þvert  yfir loftpúðann.  Í ljósi þess var kannski skynsamlegt að nota bara vinstri hönd, hann ætti þá hægri til vara ef sú vinstri skyldi brotna ef púðinn skyldi nú springa í óhappi.  Það er eins og margir geri sér ekki grein fyrir því mikla afli sem leysist úr læðingi þegar púðarnir springa út á meira en 300 km/klst hraða.

Allt gekk nú vel þar til komið var út á Álftanesveginn.  Þar er rækilega merkt að 70 km hámarkshraði sé í gildi en okkar maður annað hvort tók ekki eftir því eða þá hann tók ekkert mark á slíkum merkingum því hann ók mest alla leiðina á á rétt um 100 km/klst hraða og mest náði hann 110 km.  Þá er nú orðið stutt í ökuleyfissviptingu hefði lögreglan náð honum við þessa iðju.

Sömu sögu var að segja eftir að hann tók Fógetatorgið (beint á móti Bessastöðum)  með stæl. Þar tók við 50 km/klst hámarkshraði en okkar maður var trúr sínu og renndi eftir Norðurnesveginum á 80 - 90 en reyndar neyddist hann tvisvar sinnum að hægja á til að skemma ekki bíl og farþega á hraðahindrunum.

Ég komst í heilu lagi heim en þetta var tæplega góð kynning á annars ágætri bílaþjónustu.

Munið svo að setja upp sólgleraugun á morgun, sumardaginn fyrsta.

Gleðilegt sumar!

Nýr kennslubíll.

Tók nýjan kennslubíl í notkun í dag.  Hann er af gerðinni Hyundai i30, dísel,  árgerð 2016.  Afskaplega þægilegur bíll í akstri og ljúfur fyrir nemendur mína.  

Það er nauðsynlegt að geta boðið upp á nýlega hentuga bíla í ökukennsluna.  Bíla sem eru þægilegir fyrir nemendur og ekki síst fyrir kennarann sem jafnvel situr mesta allan daginn í hægra framsætinu.  

Í augnablikinu á ég lausa tíma og get bætt við mig nemendum.  Það má senda mér línu á ingilyds@gmail.com eða í síma 77 66 444.

sveinningi.com

Það líður að áramótum og þá er við hæfi að hugsa til baka, rifja upp árið sem er að líða og velta fyrir sér væntinum til næsta árs.  

Á síðasta ári skiptust bæði á skin og skúrir.  Það varð okkur fjölskyldunni mikið reiðarslag þegar tengdadóttir okkar, hún Ebba, var bráðkvödd að kvöldi 17. janúar.  Eftir sátum við í algeru tómarúmi og skildum ekki tilganginn með því að hrifsa burtu móður þriggja barna.   Algjör stakkskipti urðu á heimilislífinu við þetta þar sem við tókum fjölskylduna inn á heimilið.  Þar voru tveir afastrákar, sá eldri tveggja ára og yngri drengurinn ekki nema fjögurra mánaða.  

Allt hefur þetta gengið, hvað annað en sérstaklega hefur mætt mikið á betri helmingnum sem þurfti að ganga þessum drengjum í móður stað.  Sjálfur lufsast maður með og telur sig gera eitthvað gagn (að eigin áliti).

Um síðustu áramót skipti ég um vinnu.  Stóð upp frá skrifborðinu í Samgöngustofu þaðan sem ég hafði stýrt Umferðareftirliti stofnunarinnar og klæddi mig í einkennisbúning sem ég hafði ekki borið síðust 16 árin.  Ég tók við starfi varðstjóra umferðareftirlit Lögreglustjórans á Suðurlandi.  Auðvitað voru þetta heilmikil viðbrigði og margt sem ég þurft að læra og rifja upp.  Reyndar gat ég ekki verið heppnari með vinnufélaga og erum við búnir að fylgjast að út heilt ár án þess að verða nokkrun tímann sundurorða.  Alltaf gaman hjá okkur í vinnunni.  

Í september brugðum við Dísa okkur út fyrir landsteinana og eyddum nokkrum dögum í Frakklandi, aðeins í París en einnig í Normandí.  Frábær hvíld frá dagsins önn.  Nú eftir áramótin bíður okkar langþráð frí á Kanaríeyjum.

Ekki meira að sinni.

Gleðilegt nýtt ár með þökk fyrir það gamla.