May. 2, 2017

Í nóvember s.l. glaptist ég á gylliboði Hópkaupa um bón og þrif hjá Kringlubóni.  Verðið var vissulega hagstætt og hugði ég að þetta væri heppilegt í jólahreingerningu jeppans.  Hringdi og ætlaði að panta, en nei því miður engir lausir tíma fyrr en síðari hluta febrúar.  

Jæja, þetta verður þá bara vorhreingerning og í dag fór ég með jeppann í Kringlubón.  Þegar ég sótti hann í myrkvaða bílageymslu Kringlunnar um hálf sex leit ekki annað út fyrir en gljáandi glans en þegar ég skoðaði betur kom í ljós að þetta stóð ekki undir mínum væntingum.  Hurðaföls ekki verið þrifin og enn tjörublettir vetrarins neðan á hurðum, Sæti höfðu ekki verið ryksuguð og skottið hafði greinilega gleymst.

Vissulega var jeppinn skítugur en er það ekki einmitt þá sem maður leitar til fagmanna í þrifum.  Nema þarna voru sennilega engir fagmenn á ferð.  Mér var boðið að koma aftur.... þegar væri laust í haust.

Nei takk í Kringlubón fer ég ekki aftur.

Jan. 1, 2017

Áramótin liðu framhjá með miklu hæglæti.  Borðuðum dýrindis kalkún og áttum síðan notalega stund við sjónvarpið.  Alltaf gaman og gagnlegt að líta um öxl og rifja upp fréttnæma atburði ársins sem er að líða.  

Svo kom eitt af því fáa sem sameinar þessa þjóð; Skaupið 2016.  Í heild var það bara býsna gott en sumir Fóstbræðrasketsarnir voru ekki að virka þarna.  Indriði virkaði engan veginn fyrir þá sem aldrei hafa séð eða fylgst með Fóstbræðrum  var hann eins og fiskur á þurru landi.  Sama mátti segja um bílastæðaverðina, atriði sem ekki var að gera sig.  Flest annað var bara býnsa gott, brúneggin beint úr bónda, Texasmaggi og hún Ebíta sem var alveg óborganlega fyndin.

Við feðgar höfðum ákveðið að nú yrðu engir flugeldar keyptir þessi áramót.  Vorum reyndar býsna ákveðnir í því.  Um hádegisbil á gamlársdag vorum við báðir komnir inn á flugeldasíðuna Landsbjargar og farnir að velta fyrir okkur verði og púðurmagni.  Svo bregðast krosstré sem önnur tré og Hjalti var sendur í leiðangur til að kaupa eina "alvöru" skottertu.  Sem og hann gerði.  Hún var reyndar fjandi dýr en þegar við skutum henni í loftið á miðnætti hugsuðum við með hlýju til björgunarsveitanna og fundum út að tertan var hverrar krónu virði.  Enda voru við að styrkja það sem ég kalla "Okkar besta fólk".

Auðvitað ber ég væntingar til nýs árs.  Vona að það verði manni og mínum gifturíkt og gjöfult, það veri í sér vonir um betri tíð þar sem kærleikur og manngæska sé í hávegum höfð.  Ég er líka viss um að sumarið á eftir að gefa marga stóra og fallega laxa, gæsirnar verið með feitara móti og bévítans minkurinn höggvi ekki stór skörð í andastofnana.  Svo er alltaf spennandi að fylgjast með berjasprettunni í sumarlandinu okkar.

Svo síðast en ekki síst fjölskyldan, betri helmingurinn, börnin okkar og barnabörnin.  Þau eru nú allt í allt orðin 10 talsins og maður má hafa sig allan við að muna afmælisdaga allra.  Börnin eru fjársjóðurinn okkar og það eru forréttindi að geta umgengist þau og fylgst með þeim vaxa og dafna.

Svo þarf ég bara að rífa úr þennan kvefskratta sem búinn er að angra mig og aðra fjölskyldumeðlimi síðasta hálfan mánuðinn.  Markmiðið er að vera orðinn hress áður en við höldum í sólina og hið eilífa sumar á Tenerife 7. jan.

Gleðilegt ár 

Dec. 30, 2016

Margir hafa það fyrir sið að strengja áramótaheit.  Reyndar er ég ekki einn af þeim og man ekki til þess að ég hafi stigið á stokk við áramót og gert slíkt.  Núna ætla ég að breyta út af venjunni og hef sett mér hreyfingarmarkmið fyrir allt næsta ár.

Markmiðið er að stunda markvissar gönguferðir allt næsta ár.  Í hverri viku a.m.k. 21,25 kílómetra sem eru 3,03 kílómetrar á dag.  Ekki er þó raunhæft að áætla göngu á hverjum degi og a.m.k. verður tekinn einn frídagur í viku hverri.  

Mánaðarmarkmiðið eru 85 km.  Þetta er ég allt búinn að setja niður á Excel skjal sem skal svo bókfærast af samviskusemi út árið.   Til að guggna nú ekki á þessu á fyrstu vikunum finnst mér rétt að láta alþjóð vita og mikið væri gott að fá bæði aðhald og hvatningu þaðan.

Þið eigið síðan eftir að fá að sjá bæði frásagnir og myndir úr þessum gönguferðum.  Reyndar er ég svo heppinn að hafa göngufélaga, það er hún Hnota sem veit eiginlega ekkert skemmtilegra en draga eigandann út í göngu.

Dec. 14, 2016

Skrítið þetta veðurfar, komið fram í miðjan desember, 7 stiga hiti og hverji snjókorn að sjá.  Grasið á lóðinni er grænt og jarðarberin væru efalaust farin að taka við sér ef birtan væri meiri.  Það er bæði gjörbreytt veðurfar og svo ótal aðrir þættir sem vara mann við.  Hnattræn hlýnun er ekki lengur getgátur vísindamanna, hún er staðreynd sem ekki verður umflúin.  Við getum ekki leyft okkur að sitja hjá og ætla öðrum að leysa vandann.

Hvers vegna ekki?  Jú, vandinn eru okkar og ekki síður afkomenda okkar.

Dec. 10, 2016

Það vita þeir sem þekkja mig að ég dunda mér við ljósmyndun.  Uppáhaldið þar er að mynda landslag.

Hér koma nokkrar myndir teknar á árinu.