Dec. 3, 2016

Fjölskyldulíf

Við hjónin eigum barnaláni að fagna.  Eignumst fjögur falleg, heilbrigð og vel gerð börn, tvo stráka og tvær stelpur.  Síðasta árið hefur sonur okkar með tvö barnunga drengi dvalið á heimilinu eftir að hann missti konu sína á sviplegan hátt í janúar s.l.  Auðvitað hefur þetta sett annan og líflegri brag á heimilishaldið og alveg óvænt erum við orðin virkir þátttakendur í uppeldi þessara gullmola.   

Tvær dætra okkar búa úti á landi.  Það er alltaf tilhlökkun í loftinu þegar von er á fjölskyldum þeirra í heimsókn.  Að gömlum og góðum sið hýsum þær og það er mikið fjör þegar barnabörnin koma.  

Það er ekki oft sem öll stórfjölskyldan kemur saman undir eitt þak.  Þó er það svo um þessa helgi og öll rúm fullnýtt auk þess sem sumir sofa á stofugólfinu.  Vissulega þurfa allir sitt pláss og sumir meira en aðrir og sumum liggur hærra rómur en öðrum.  Svoleiðis er það bara. Auðvitað er þetta gaman en það reynir stundum á gamla skrokka sem gjarnan kunna betur að meta kyrrðina og rólegheitin þegar afleggjarnir hafa verið kvaddir og það verður hljótt í húsinu.  

Þá getur maður farið að hlakka til næstu heimsóknar.