Dec. 30, 2016

1020 kílómetra markmið 2017

Margir hafa það fyrir sið að strengja áramótaheit.  Reyndar er ég ekki einn af þeim og man ekki til þess að ég hafi stigið á stokk við áramót og gert slíkt.  Núna ætla ég að breyta út af venjunni og hef sett mér hreyfingarmarkmið fyrir allt næsta ár.

Markmiðið er að stunda markvissar gönguferðir allt næsta ár.  Í hverri viku a.m.k. 21,25 kílómetra sem eru 3,03 kílómetrar á dag.  Ekki er þó raunhæft að áætla göngu á hverjum degi og a.m.k. verður tekinn einn frídagur í viku hverri.  

Mánaðarmarkmiðið eru 85 km.  Þetta er ég allt búinn að setja niður á Excel skjal sem skal svo bókfærast af samviskusemi út árið.   Til að guggna nú ekki á þessu á fyrstu vikunum finnst mér rétt að láta alþjóð vita og mikið væri gott að fá bæði aðhald og hvatningu þaðan.

Þið eigið síðan eftir að fá að sjá bæði frásagnir og myndir úr þessum gönguferðum.  Reyndar er ég svo heppinn að hafa göngufélaga, það er hún Hnota sem veit eiginlega ekkert skemmtilegra en draga eigandann út í göngu.