Jan. 1, 2017

Áramót

Áramótin liðu framhjá með miklu hæglæti.  Borðuðum dýrindis kalkún og áttum síðan notalega stund við sjónvarpið.  Alltaf gaman og gagnlegt að líta um öxl og rifja upp fréttnæma atburði ársins sem er að líða.  

Svo kom eitt af því fáa sem sameinar þessa þjóð; Skaupið 2016.  Í heild var það bara býsna gott en sumir Fóstbræðrasketsarnir voru ekki að virka þarna.  Indriði virkaði engan veginn fyrir þá sem aldrei hafa séð eða fylgst með Fóstbræðrum  var hann eins og fiskur á þurru landi.  Sama mátti segja um bílastæðaverðina, atriði sem ekki var að gera sig.  Flest annað var bara býnsa gott, brúneggin beint úr bónda, Texasmaggi og hún Ebíta sem var alveg óborganlega fyndin.

Við feðgar höfðum ákveðið að nú yrðu engir flugeldar keyptir þessi áramót.  Vorum reyndar býsna ákveðnir í því.  Um hádegisbil á gamlársdag vorum við báðir komnir inn á flugeldasíðuna Landsbjargar og farnir að velta fyrir okkur verði og púðurmagni.  Svo bregðast krosstré sem önnur tré og Hjalti var sendur í leiðangur til að kaupa eina "alvöru" skottertu.  Sem og hann gerði.  Hún var reyndar fjandi dýr en þegar við skutum henni í loftið á miðnætti hugsuðum við með hlýju til björgunarsveitanna og fundum út að tertan var hverrar krónu virði.  Enda voru við að styrkja það sem ég kalla "Okkar besta fólk".

Auðvitað ber ég væntingar til nýs árs.  Vona að það verði manni og mínum gifturíkt og gjöfult, það veri í sér vonir um betri tíð þar sem kærleikur og manngæska sé í hávegum höfð.  Ég er líka viss um að sumarið á eftir að gefa marga stóra og fallega laxa, gæsirnar verið með feitara móti og bévítans minkurinn höggvi ekki stór skörð í andastofnana.  Svo er alltaf spennandi að fylgjast með berjasprettunni í sumarlandinu okkar.

Svo síðast en ekki síst fjölskyldan, betri helmingurinn, börnin okkar og barnabörnin.  Þau eru nú allt í allt orðin 10 talsins og maður má hafa sig allan við að muna afmælisdaga allra.  Börnin eru fjársjóðurinn okkar og það eru forréttindi að geta umgengist þau og fylgst með þeim vaxa og dafna.

Svo þarf ég bara að rífa úr þennan kvefskratta sem búinn er að angra mig og aðra fjölskyldumeðlimi síðasta hálfan mánuðinn.  Markmiðið er að vera orðinn hress áður en við höldum í sólina og hið eilífa sumar á Tenerife 7. jan.

Gleðilegt ár