Eðli umferðar - skemmtilegt myndband

Ökunám

Almennt ökunám getur hafist við 16 ára aldur og er þá yfirleitt miðað við að neminn nýti sér rétt sinn til æfingaaksturs. Sé æfingaaksturinn ekki nýttur er heppilegra að byrja nokkru síðar, 3- 4 mánuðum fyrir 17 ára afmælið.  Val á ökukennara er mikilvægt því hann á eftir að leiða nemann í gegnum allt námið og á endanum í sjálft bílprófið.

Kennsluakstur

Miðað er við að hver kennslustund sé 45 mín og þannig þarf að taka að lágmarki 15 kennslustundir fyrir prófið.  Sé æfingaakstur valinn er meginreglan sú að teknir séu að lágmarki 10 kennslustundir fyrir æfingaaksturinn og síðan að lágmarki 5 kennslustundir fyrir prófið.  Þó skal tekið fram að kennarinn metur hvort og hvenær neminn sé tilbúinn til prófs.  Þar er mjög einstaklingsbundið.

Ökuskólinn Ö1

Eftir að hafa tekið nokkra ökutíma hjá kennara er tímabært að fara í Ö1 (fyrsti hluti ökuskólans) 

Fljótlega eftir að verkleg kennsla hefst þarf neminn að sækja fyrsta hluta bóklegs náms í ökuskóla (nefnt Ö1). Verklegri kennslu er haldið áfram samhliða og í beinu framhaldi af náminu í ökuskólanum.

Æfingaakstur

Æfingaakstur með leiðbeinanda getur byrjað þegar neminn er orðinn 16 ára og hefur náð nokkuð góðum tökum á akstri hjá ökukennara (lágmark 10 kennslustundir).  Það þarf einnig að vera búinn að ljúka fyrsta hluta ökuskólans (Ö1).  Áður en æfingaakstur hefst er nauðsynlegt að leiðbeinandinn sitji með í einum ökutíma a.m.k.   Þegar ökukennarinn er búinn að samþykkja að neminn fari í æfingaakstur þarf að fá samþykki viðkomandi tryggingafélags og að endingu gefur sýslumaður út leyfið.  Leyfið þarf alltaf að vera meðferðis í æfingaakstrinum auk þess sem merkja þarf bílinn með merkingu "ÆFINGAAKSTUR".  

Ökuskólinn Ö2

Þegar styttist í prófið er rétt að fara í seinni hluta ökuskólans (Ö2).  Samhliða heldur neminn áfram í ökutímum með kennaranum alveg fram að prófinu.

Prófið

Prófin eru tekin hjá Frumherja hf, bæði það bóklega og einnig það verklega.  Neminn má taka bóklega prófið allt að tveimur mánuðum fyrir 17 ára afmælið en verklegt próf má ekki þreyta fyrr en tveimur vikum fyrir afmælið.  Verklegt próf er tekið á kennslubílnum.

Ökuskólinn Ö3

Síðasti áfangi ökuskólans fer fram í ökugerði og er bæði bóklegt og verklegt.  Verklegi þátturinn fer fram á sérstökum bílum sem eru þannig útbúnir að kennarinn getur aukið og minnkað veggrip eftir þörfum.  Þar lærir nemandinn að bregðast við fari bíllinn að skrika til og eins að hemla með mismiklu veggripi.  Þessi hluti ökuskólans er tekinn í lok námsins.

Val á ökuskóla

Algengast er að kennarinn sé í samstarfi við einn eða fleiri ökuskóla og vísar þá nemendum sínum þangað.  Bæði eru til setnir skólar og eins er hægt að taka fræðilega námið í netskóla.

Í ökuskólanum er farið eftir námsskrá til ökunáms, t.d. varðandi umferðarreglur, merkingar og ýmis atriði sem varða umferðarskilning.  Þar eru einnig unnin verkefni og nemarnir aðstoðaðir við undirbúninginn fyrir ökuprófið.